Hornstrandir eru rúmlega 580 km2 friðland sem staðsettar eru á norðanverðum Vestfjörðum. Staðsetningin er sérstök að því leiti að þangað kemst maður aðeins með bát, flugvél eða gangandi. Á hornströndum má finna fjölbreyttar gönguleiðir sem hafa í gegnum tíðina verið vinsælar meðal ferðamanna. Gróðurfar er mjög sérstakt á Hornströndum sem stafar af sérstöku veðurfari, mikill og samfelldur snjór ver gróðurinn fyrir frosti og vindum auk þess sem beit hefur ekki verið á svæðinu í nær heila öld. Há fjöll og klettar setja svip sinn á svæðið og undirlendi gróft. Mikilvægt er þess vegna að vera í góðum skóm og klæddur eftir veðri þegar gengið er um Hornstrandir.
Hornstrandir eru mikið fuglasvæði og búa þar margar tegundir fugla, þó mest sjófuglar sem halda til í björgunum. Refurinn á Hornströndum er Heimskautarefur og er sú tegund alfriðuð hér á landi sem og í Evrópu. Hann er vel sýnilegur oft á tíðum og á það til að stilla sér upp fyrir ferðamenn til að láta mynda sig. Vinsælt er að ná myndum af refnum og þar sem hann fær algjöran frið hættir hann sér nálægt mannfólki og á það jafnvel til að ræna frá þeim ef fólk lítur of lengi af nestinu sínu. Óþarfi er að hræðast refinn á svæðinu og getur hann meira að segja verið nokkuð gæfur, en mikilvægt er að hafa í huga að hann er villt spendýr sem ver sitt svæði. Svo nálgast þarf refinn með varúð og virðingu.
Byggð á Hornströndum lagðist niður um miðja 20. öld. Margar fjölskyldur eiga þó enn hús á svæðinu sem nýtt eru yfir sumartímann þegar siglingaáætlun hefst á svæðið. Samgöngur til og frá svæðinu eru aðallega með bátum frá Ísafirði og nágrenni en einnig er siglt frá Ströndum.
Hér á síðunni getur þú séð til hvaða áfangastaða við siglum og bókað far.
Á heimasíðu umhverfisstofnunar má sjá göngukort sem gott er að hafa til hliðsjónar þegar skipuleggja á gönguferð um Hornstrandir.
Einnig má kaupa kortið í fullri stærð á skrifstofu umhverfisstofnunar.
Skipulagðar ferðir eru í boði hjá Sjóferðum um svæðið sem má sjá á síðunni hér undir “Vinsælilr áfangastaðir” auk þess sem starfsfólk Sjóferða og/eða Vesturferða munu aðstoða fólk að láta sína draumaferð um Hornstrandir verða að veruleika. Farnar eru daglegar áætlunarferðir um svæðið og ótal möguleikar á ferðum. Hægt er að hafa samband á sjoferdir@sjoferdir.is eða á info@westtours.is