Um fyrirtŠki­

Ísfirska ferðaþjónustufyrirtækið sem nú heitir Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar ehf. byrjaði ,,úr engu" árið 1983 - fyrir tilviljun en ekki af ásetningi. Vöxturinn hefur verið hægur og rólegur en ekki í neinum stökkum.

Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar eru dæmigert fjölskyldufyrirtæki. Fjölskyldufaðirinn, Hafsteinn Ingólfsson kafari, byrjaði aleinn á sínum tíma en sumarið 1997 voru stöðugildin orðin fimm, eins og það er kallað - Hafsteinn og eiginkona hans, Guðrún Kristjánsdóttir (Kiddý), ásamt sonum sínum og tengdadætrum.

Formlega séð er fyrirtækið Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar ehf. bráðungt fyrirtæki, ekki stofnað fyrr en árið 1998. Fram að þeim tíma hafði ferðaþjónustan verið rekin á kennitölu Köfunarþjónustu Hafsteins Ingólfssonar.

 

Upphafið má rekja til ársins 1982 þegar Hafsteinn keypti sér "fokheldan" hraðfiskibát og innréttaði hann sjálfur heima á Ísafirði. Þar var hann að láta þann draum rætast að eiga sitt eigið "horn". Á þessum árum vann Hafsteinn í vélsmiðju en tók sér jafnan gott frí á sumrin til að geta farið á handfæri. Kannski er það í eðli hans úr Súgandafirðinum að langa út á sjó og vera eiginn herra. Fyrsti báturinn var sumsé lítill handfærabátur og hét Bliki. Þetta var 22ja feta Flugfiskur og Hafsteinn sjósetti hann vorið 1983. Þá var engin sérstök ferðaþjónusta á sjó á þessu svæði.

 

Hafsteinn var og er kafari og jafnframt því sem hann var á skaki á bátnum sínum var iðulega hóað í hann til að skera úr skrúfum og sinna öðrum köfunarverkefnum. Fljótlega byrjuðu líka þeir sem áttu hús norður í Aðalvík og víðar að biðja hann að skutla sér á milli, því að báturinn var fljótur í förum. Þessi þjónusta við "húsafólkið" í gömlu byggðunum norðan Djúps var þó algerlega tilfallandi, ekki skipulögð og því síður auglýst.

En svona byrjaði þetta og svona var þetta fyrstu árin. Fimm árum seinna, árið 1988, keypti Hafsteinn sér stærri bát í staðinn fyrir þann fyrsta. Þetta var Sómi 800 og hét líka Bliki. Þá var Hafsteinn hættur í vélsmiðjunni og farinn að sjá um skíðasvæðið á Seljalandsdal. Þá hafði hann sumarið alveg fyrir sig, allt frá maílokum og langt fram á haust, og gat verið viðloðandi bátinn og sjóinn allan þann tíma. Auk þess sem fleiri og fleiri báðu hann að skjótast með sig eða sækja sig norður yfir Djúp var farið að biðja hann að skreppa á sjóstöng og þannig urðu skutlferðirnar stöðugt fleiri. En Hafsteinn var líka á skakinu og líklega hefur verið mest að gera í köfunum á árunum kringum miðjan níunda áratuginn. Þá var hann oft kallaður til þjónustu við báta og togara og fór iðulega mjög langt út. Þannig vatt þetta upp á sig.

 

 

Svo kom kvótakerfið og það bitnaði illa á Hafsteini. Árið 1991 endurnýjaði hann bátinn öðru sinni og keypti Sóma 900 sem hét Bliki og heitir enn. Kvótinn sem hann hafði var svo lítill að hann dugði ekki til að framfleyta fjölskyldunni. Þá var gott að hafa líka eitthvað annað fyrir bátinn að gera. Og farþegunum fjölgaði jafnt og þétt. Árið 1994 lætur Hafsteinn lengja Blika sinn þannig að hann fær leyfi fyrir 19 farþega. Þá kemur eiginkonan Kiddý jafnframt til sögunnar við reksturinn. Þá er báturinn orðinn of stór og farþegarnir of margir til þess að einn maður gæti veitt nógu góða þjónustu um borð.

Á árunum 1988-90 voru farþegarnir orðnir fáein hundruð yfir sumarið og síðan fjölgaði þeim nokkuð á næstu árum. Árið 1994 urðu þáttaskil, því að jafnframt því sem báturinn var lengdur var byrjað á markaðssetningu og bæklingagerð og auglýsingum. Þá lá fyrir að ekki yrði meiri fiskur veiddur á Blika. Samið var við ferðaskrifstofur um flutning á gönguhópum á Hornstrandir. Sumarið 1996 voru farþegarnir orðnir um 1.500 talsins.

 

Árið 1997 var báturinn Kiddý keyptur til viðbótar og voru þá bátarnir orðnir tveir í rekstri samtímis.  Farþegafjöldinn nálgaðist 2.000 manns það sumar.

Kiddý var seld aftur vorið 2000 til Hvammstanga, þar sem hún fékk það hlutverk að sinna selaskoðun, þegar nýsmíðaður farþegabátur var tilbúinn, Guðrún Kristjáns. Báturinn er 30 tonn og með leyfi fyrir 48 farþega.
Tveir úr fjölskyldunni voru á minni bátnum og þrjú voru á þeim stærri. Þannig hafði starfsmönnum hjá þessu litla fjölskyldufyrirtæki fjölgað úr einum (reyndar broti úr einum, því að ferðamennskan var aðeins tilfallandi á milli handfæraveiða og köfunartúra) og upp í fimm í fullu starfi yfir sumartímann.

Árið 2001 er Bliki, sem verið hafði flaggskip fyrirtækisins í 10 ár, seldur til Jónasar Helgasonar í Æðey, og í staðinn kemur nýr bátur með sama nafni, eða Bliki IV og tekur 22 farþega.
Í maí 2004 kemur nýr Bliki, sem er systurskip Guðrúnar, 38 farþega bátur og er hann enn í þjónustu fyrirtækisins.  Þarna eru þrír bátar komnir í þjónustu hjá fyrirtækinu.
Í maí 2007 er Bliki IV seldur til Ístak, sem fer með hann til Grænlands, þar sem hann fékk það hlutverk að ferja starfsmenn til og frá virkjunarstað.

Í hans stað kemur Ingólfur sem er 30 farþega bátur, og enn eru  því þrír bátar í rekstri.
Í gegnum árin hefur starfsemi fyrirtækisins vaxið hægt en örugglega, og höfum við kappkostað að vera með góða og hreinlega báta.  Alls hafa Sjóferðir eignast 8 báta frá upphafi.Til þess að auka enn við þjónustuna ákváðum við veturinn 2008 að fest kaup á þjónustuhúsi, sem síðan var sett niður við aðstöðu fyrirtækisins á höfninni.  Tilfinnanlega vantaði aðstöðu fyrir farþega okkar, þar sem þeir gátu beðið brottfarar og komu bátanna.,,Bryggjuhúsið" var tekið í notun í upphafi vertíðar þetta vor, og hefur svo sannarlega sannað gildi sitt.

                                          
Helstu þættir í starfsemi fyrirtækisins í gegnum árin:

Árið 1996 hætti Djúpbáturinn Fagranes áætlunarsiglingum um Ísafjarðardjúp, en það sama ár lagðist Reykjanesskóli af.  Vegagerð Ríkisins óskaði þá eftir því, að fyrirtækið annaðist póst- vöru og farþegaflutninga í Vigur og Æðey allan ársins hring, tvisvar í viku.  Á veturna nýttust þessar ferðir einnig til þess að flytja börnin úr Vigur til Súðavíkur, í og úr skóla.  Þessi þjónusta við Vegagerðina lagðist af 1. apríl 2010.  Þar með lagðist öll þjónusta á sjó niður við djúpmenn, en hún hafði verið stunduð í á aðra öld.
Fyrir þennan tíma voum við byrjuð með áætlunarsiglingar um Hornstrandir og Jökulfirði.  25. júní 1997 ákváðum við í samtarfi við Birnu Pálsdóttur í Bolungarvík að hefja dagsferðir á Hesteyri, þar sem farþegar fengu leiðsögn um svæðið og þáðu veitingar í Læknishúsinu.   Fljólega eftir að þessar ferðir hófust, kom það í ljós að til þess að auðveda farþegum okkar landgöngu á Hesteyri, þyrfti að bæta aðkomuna, og í framhaldi af því fóum við fjölskyldan og fáeinir vinir út í það þrekvirki að smíða flotbryggju og fasta bryggju, í kapphlaupi við flóð og fjöru á staðnum, sem tók okkur þónokkurn tíma.  Þetta hefur bætt mjög aðgengi fyrir okkur og aðra.  Þetta hefur sannað gildi sitt, því í dag erum við að fara með töluvert af farþegum af skemmtiferðaskipum, sem annars hefðu ekki farið í heimsókn á Hesteyri.  Þessar ferðir eru enn farnar í dag á sömu tímum og dögum, og þær hófust, og var því 17. sumrinu að ljúka þegar þetta er ritað árið 2013. 
Vorið 1999 hófum við samstarf við Vesturferðir og ábúendur í Vigur um daglegar ferðir út í eyjuna með ferðamenn, sem fengu þar leiðsögn og veitingar, og eru þessar ferðir ennþá á dagskrá hjá okkur.
Þetta sama ár gerðum við samnig við Vesturferðir um að þeir sæju alfarið um sölu og bókanir, ásamt útgáfu farseðla, almennt í okkar ferðir. 
Skemmtiferðaskip hófu komu sína til Ísafjarðar og til gamans má geta þess að við þjónustuðum þrjú skip þetta sumar og var flotinn okkar þá tveir Sómabátar, með farþegaleyfi fyrir samtals 35 farþega.  Á árinu 2013 einu saman,  eru skemmtiferðaskipin sem við erum búin að þjónusta orðin 33, þannig að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árinu 1999.  Í dag getum við flutt 116 farþega á okkar 3 bátum í einu.

Udanfarin ár hefur starfsmannafjöldinn hjá fyrirtækinu verið 10-12 manns yfir sumarvertíðina.

Í dag er töluvert talað um sprotafyrirtæki, og að vel athuguðu máli höldum við, að við höfum verið langt á undan okkar samtíð, og stofnað okkar eigið sprotafyrirtæki á sínum tíma.

Vefumsjˇn